Um síðustu helgi tók ég eftir að hænsnin voru öll í felum og það heyrðist ekki píp í þeim. Þegar ég kom nær sá ég ástæðuna. Ég fann fullt af fjöðrum og í miðjunni lá dauður silkihani.

Í hitteðfyrra áskotnaðist mér rennibekkur. Í námi mínu sem vélvirki var rennismíði algengust. Við smíðuðum íhluti í járnbrautarvagna, allt upp í hjól. Það eru um fjörtíu ár síðan ég hef haft aðgang að rennibekk.

Um daginn bættust í búið fjórar aligæsir. Mikið er gaman að sjá hvað þær eru ólíkar hænunum. Þær eru náttúrulega miklu stærri og allar hreyfingar eru hægari. Svo vilja gæsir helst alltaf vera úti. Þær fara ekki inn í kofann sinn þegar dimmir. Ennþá síður sofa þær á priki!

Nú eru tvær landnámshænur að reyna að liggja á. Ég segi reyna vegna þess að það er ekki sjálfgefið að það takist hjá þeim. Fuglar eru mis-góðir í þáttum foreldrahlutverks. Sumir eru góðir uppalendur en lélegir áliggjarar eða öfugt. Svo er líka alltaf spurning hversu mikinn frið hænurnar fá frá hinum fuglunum í kofanum. Oft vilja hinar endilega verpa í sama kassann og þar sem ein liggur á þó að við hliðina séu fimm tómir kósy kassar. Þær eru oft ótrúlega þrjóskar. 

 

Á vef Landmælinga Íslands má finna fjölda loftmynda allt tilbaka til fjórða áratugar síðustu aldar. Ég tók út myndir af Efri-Flankastöðum og bar saman þróun bæjarins í áranna rás. Þetta finnst mér afar skemmtilegt og í hvert sinn sem ég skoða myndirnar aftur rekst ég á eitthvað nýtt.

Þetta er hani sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er sérlega ljúfur og virðist nánast sækjast eftir að vera nálægt mér. Ég er núna að reyna að kenna honum eitt og annað. Til þess nota ég clicker og rúsinur eða hvítmaðka sem nammi. Það fyrsta sem hann er að læra er að stíga með annann fótinn á hendina mína þegar ég rétti hana út. Í hvert sinn sem hann gerir það þá geri ég klikk- hljóð og gef honum nammi. Þetta er að koma hjá honum. Samt held ég að hann sé með smá athyglisbrest, honum gengur ekki allt of vel að einbeita sér að sama málefni í meira en nokkrar sekúndur...
En - mér finnst hann skemmtilegur. 

Gluggarnir í húsinu voru ónýtir. Flestir voru fúnir og láku verulega. Til að koma í veg fyrir frekari skemmdum og leka skrúfaði ég fögin aftur, notaði kítti og þannig gat ég komið í veg fyrir leka, allavega áður en gluggunum yrði skipt út.

En nú er komið að því að endurnýja þá.

Page 1 of 3