Frásagnir um útræði frá Flankastöðum
Stórfiskur er út af Vesturbæjarfjörunni; ekki má fara grynnra fyrir hann á árabát en kirkjuna um Munkasetur. Sunnan við vörina er Vesturbæjarfjara; næst vörinni eru Vesturbæjarklappir, ekki háar en nokkuð miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem kallast Vesturbæjarhausinn; lágur tangi er norðvestur úr fjörunni, varasamur þegar beygt er inn í vörina.
Hamarsund var fyrir allar lendingar norðan Bæjarskerseyrar, þegar sund þurfti að nota. Þegar lenda skyldi á Flankastöðum var, þegar inn úr sundinu kom, farið skáhallt yfir víkina norður á við að suðurósnum, sem liggur að Flankastaðavör.