Saga Flankastaða

Áður fyrr voru Flankastaðir allstór jörð á milli Sandgerðis og Útskálahverfis en í tímans rás hefur jörðinni verið skipt upp.
Hér verður aðallega fjallað um sögu og örnefni í jörðum Efri- og Neðri-Flankastaða sem eru syðst í forna Flankastaða landinu.

Stórfiskur er út af Vesturbæjarfjörunni; ekki má fara grynnra fyrir hann á árabát en kirkjuna um Munkasetur. Sunnan við vörina er Vesturbæjarfjara; næst vörinni eru Vesturbæjarklappir, ekki háar en nokkuð miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem kallast Vesturbæjarhausinn; lágur tangi er norðvestur úr fjörunni, varasamur þegar beygt er inn í vörina.

Hamarsund var fyrir allar lendingar norðan Bæjarskerseyrar, þegar sund þurfti að nota. Þegar lenda skyldi á Flankastöðum var, þegar inn úr sundinu kom, farið skáhallt yfir víkina norður á við að suðurósnum, sem liggur að Flankastaðavör.

Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Suðurnesjabæ, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir (þ.e. jörðin fyrir skiptingu hennar um  1900-1930) eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar.

Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. (Islendinga Sögur ud. efter gamle Haandskrifter af det kongelige nor liske Oldskrift-Selskab. isl. et praef. dan, Bindi 1, Möller, 1843. bls 246.)

Sunnan við Klappartún (8) er Tjarnarkotstún (9). Tjarnarkot (10) fór í eyði nálægt aldamótum, en túnið lagðist undir Klöpp. Sunnan við þessi tún er allstór tjörn, sem heitir Flankastaðatjörn (1). Þar hefi ég séð þéttastar pöddur í vatni, að síldarátu ekki undanskilinni. Á malarkampinum milli tjarnar og sjávar sér enn fyrir rústum af gömlum sjómannabyrgjum. Það er útjaðar Flankastaðanausta (2); þau eru fáum föðmum sunnar. Þar stóðu tveir timburskúrar norðan við vörina, var annar (sá vestri) frá Klöpp, en hinn frá Flankastöðum (Austurbæ).

Heimild: Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; - Flankastaðir“,  Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-118.