Stórfiskur er út af Vesturbæjarfjörunni; ekki má fara grynnra fyrir hann á árabát en kirkjuna um Munkasetur. Sunnan við vörina er Vesturbæjarfjara; næst vörinni eru Vesturbæjarklappir, ekki háar en nokkuð miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem kallast Vesturbæjarhausinn; lágur tangi er norðvestur úr fjörunni, varasamur þegar beygt er inn í vörina.
Hamarsund var fyrir allar lendingar norðan Bæjarskerseyrar, þegar sund þurfti að nota. Þegar lenda skyldi á Flankastöðum var, þegar inn úr sundinu kom, farið skáhallt yfir víkina norður á við að suðurósnum, sem liggur að Flankastaðavör.
Mið á ósnum voru tvær vörður, þær voru nefndar efri og neðri Ósvarða, stóð efri ósvarðan á háum hól uppi í heiði, en neðri ósvarðan á klöpp nokkurri fyrir ofan og sunnan gamla Traðarkot. Kotið stóð í móanum ofan við Vesturbæjartúngarðinn, en fór í eyði fyrir aldamót. Norðan við ósinn er Stórfiskur, áður nefndur, en sunnan við ósinn eru Þuríðarsker og nokkrar lágar flúðir, sem koma upp úr um fjöru og heita Breiður, en það, sem næst er ósnum að sunnan, er lítið sker, strýtumyndað, og heitir Klakkur.
Ósinn var tekinn utan við Stórfiskshausinn. Ósvörðurnar saman og þeim haldið, þangað til gamli bærinn á Bæjarskerjum var kominn að Sandgerðishamri, eins og hann var ósnertur, en á meðan bærinn var að hverfa inn í Hamarinn var snúið norður með Vesturbæjarfjörunni, unz vörin var opin. Ef stórstraumsfjara var stóð skipið á stórsendinni hvítri flúð fremst í vörinni, ef ofurlítið féll að, stóð aftur á lágum þangi vöxnum þröskuldi, sem er yfir vörina þvera, en þegar yfir hann flýtur, er komið í vörina sjálfa, en það er allbreið sandvík með bogadregnum malarkampi fyrir ofan. Vesturbæjarmenn lentu syðst í vörinni. Þeir gátu losað farminn við klappirnar, eins og bryggja væri, ef vel stóð á sjó. Öll önnur skip úr hverfinu lentu norður í vörinni. Skipin stóðu í langri röð neðan í kampinum í góðu og stilltu, en voru sett upp fyrir timburskúrana, ef illa áhorfðist með veður eða brim, og var oftast óhætt þar. Þó kom það fyrir, þegar sjór brauzt inn yfir allan kampinn í stórflóðum, að þau flutu þar upp og rak þá allan flotann norður yfir tjörnina, og lágu svo öll í hrönn norður á Tjarnarkotstúni, en lítið eða ekki brotin.
Mjög mikil lá (sogadráttur) var í Flankastaðavör um flóð í brimi (enda segir jarðabók, að lending sé voveifleg þar; getur þá varla verið átt við annað en lána). Þar þurfti því góða skiphaldsmenn, sem þeir líka voru, gömlu hraustmennin; hert í eldi hörðustu lífsbaráttu, sem við ekki þekkjum nú. Þeir voru þungir í vöfum, teinahringarnir, sem ekki máttu taka niður í hnísuna (samskeyti kjalar og framstefnis). Ef skipið tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu, sogaði þá óðara undan, svo skipið varð á þurru og lagðist á hliðina; næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu. Sjóföt manna á opnum skipum voru, fram að aldamótum, einungis brók og skinnstakkur, heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin náði upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Ef bandi var brugðið um mittið, ofan við mjaðmir, hertist skinnstakkurinn að brókinni; hert var að á bakinu og endanum brugðið fram milli fótanna upp í mittisbandið að framan; féll þá stakkurinn að brókinni, einnig að neðan. Þetta var hin svonefnda klofbinding. Mátti talsvert svalka í sjó þannig umbúinn, án þess að verða „brókarfullur“, eins og það var kallað, ef ofan í brókina rann.
Fyrir kom, að svo mikil var láin, að ólendandi var á venjulegan hátt. Var þá fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að öllu leyti. Svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom dálítið hlé á stórbrotum; var það kallað lag. Róið var þá að með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar hrakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi. Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu, og hjálpuðu hver öðrum. Oft var gaman að sjá, hve mennirnir voru snarir og samtaka eins og þeir væru allir ein og sama vélin. Það var líka gaman að horfa framan á stórskipin undir árum, hvernig 10—12 árar gengu allar jafnt upp og niður, og jafn tími milli toga, eins og þeim væri öllum stjórnað af einni sál eða þjálfuð hermannaganga í „takt“. Og um þetta var haft aðeins eitt orð, „Áralagið“, sem fáir drengir læra nú.
Í Flankastaðavör voru stórskipin ætíð sett, áður en fiskur var borinn upp. En kampurinn var brattur, svo að stundum gekk ekki meira í koki (átaki) en þverhandar breidd eða minna. Mátti þó heyra mörg eggjunarorð svo sem: Tökum á! Allir eitt! Samtaka nú! o. s. frv. En skipin voru þung, menn þreyttir og misjafnir að þreki eftir erfiðan barning og daglanga sveltu, því aldrei var matarbiti með á sjóinn á þeim árum á Miðnesi. Að því búnu var fiskurinn borinn upp á bakinu og honum skipt eftir stærð og gæðum. — Aldrei heyrði ég formanni ámælt fyrir röng skipti, og þó einhverju hefði munað, var óvíst, hver hlyti, þar sem hlutkesti var ætíð viðhaft. Hins vegar þóttust hásetar stundum finna mismun á hlutum eftir skiptin. Sagðist sá hafa orðið kastböllur, sem taldi sig óheppinn í hlutkestinu, og sumir þóttust alltaf verða kastbellir. En það er víst, að ekki bar öllum sami hlutur, svo misjafnir voru hásetar að dugnaði. Það var oft, að fáir menn af skipshöfninni báru allt uppi. Yfir þetta var engum lögum hægt að koma í skiptunum, en virðing og þökk húsbónda og formanns hlutu þeir, sem sköruðu fram úr, og stundum einhver hlunnindi á annan hátt. — Eftir skiptin fór hver með sinn hlut að sinni kró. Var svo ein allsherjar aðgerð við alla skúra og byrgi og ekki hætt, fyrr en fiskurinn var saltaður og gotan, lifrin komin í kaggann, kútmagar slitnir, sundmagar skafnir, hausar upprifnir og skrúfaðir, og, ef mögulegt var, slorið komið heim í for. Þegar ég skrifa þetta minnist ég áranna um 1890.
Annar ós liggur að Flankastaðavör; hann kallast Miðósinn (20). Mið á honum var efri ósvarðan um hlaðið á Flankastöðum. Liggur ósinn norðan við Stórfisk, næstum beint á vörina; þó varð að víkja aðeins til norðurs fyrir tangann á Vesturbæjarfjörunni. Þessi ós var nægilega djúpur og hreinn, en minnst notaður. Hann lá sjaldan beinast við, þegar komið var af sjó.
Milli Vatnaskers og Austurbæjarhaussins er þriðji ósinn, kallaður Norðurós (21). Mið á honum var neðri ósvarða við hornið á Austurbæjarfjósinu gamla. Þessi ós var ætíð farinn, þegar komið var norðan að.
Neðri ósvarðan hvarf af einhverjum ástæðum fyrir nokkrum áratugum. Efri ósvarðan stendur enn, lítið sködduð, enda hefir tryggðatröllið Sigurður Einarsson í Fagurhóli stundum verið að laga í henni steina.
Stærsta útgerðin úr Flankastaðavör var frá Klöpp. Magnús Stefánsson byggði stóran og góðan teinahring um 1880. Gerði hann út einn og var sjálfur formaður. Magnús andaðist 17. janúar 1890. Hélt þá ekkjan, Gróa Sveinbjarnardóttir, áfram útgerðinni og varð Oddur í Brautarholti við Reykjavík formaður skipsins um nokkur ár. Hann var dugnaðarmaður og aflasæll. Fyrir og um aldamót voru stórskipin lögð niður, en upp voru tekin sexmannaför, og fleiri breytingar urðu þá, svo sem það, að þá var upptekin lending í Klapparlóninu. Klöpp var þá annar af nyrztu bæjum í hverfinu og sá, er stóð nær sjó. Árið 1936 var lögð niður byggð þar, sem Klöpp hafði áður staðið, norðan við Kólgutjörn, en reist að nýju suður á gamla Tjarnarkotstúni. Eins og áður er sagt, er malarkampur fyrir neðan Klöpp og neðan við kampinn er Lónið í fjörinni; þröskuldur er fyrir framan og rann sífellt úr Lóninu um fjöru, og ekki flaut þar inn með lægra en hálfföllnum sjó.
Þarna var þá orðinn lendingarstaður Klapparskipsins og raunar fleiri af þeim, sem áður lentu í Flankastaðavör. Auk þess að Klapparskúrinn var fluttur frá Flankastaðavör norður á kampinn við Lónið, voru þar byggðir skúrar frá Flankastaðakoti og Endagerði (sem nú heitir Arnarbæli) , og sund-merki af tré var sett á kampinn. Fyrir utan fjöruna fram af Lóninu er sandgljá dálítil, en fyrir utan sandgljána eru flúðir, vaxnar háum þönglum, sem mikið brýtur á, en hjaðnar þó niður, þegar kemur á gljána, nema mikið brim sé, enda var þá ófært. Í hroða varð að skáskjóta sér undir flötum sjó milli fjörunnar og FIúðabrotsins til þess að komast á sundmerkin, en þau voru: Loftsglugginn í Flankastaðakoti í trémerkið í kampinum; þar var dýpsta rásin inn í Lónið. Vörin var sandvik, sem gekk frá Lóninu upp í kampinn, og voru hlaðnar upp varabrúnirnar, svo þar mátti leggja skipi að og kasta fiski á land. Nærri má geta, að oft hefir verið lá við Lónið; hvergi leitar sjórinn meira inn yfir kampinn en fyrir neðan gömlu Klöpp, þess vegna var líka bærinn færður. Karl Jónsson útgerðarmaður, sem bóndi var í Klöpp frá 1936—1942, gróf niður í kampinn tvo gamla nótabáta, hvorn við endann á öðrum, fyllti þá af grjóti og sléttaði yfir. Bátarnir virðast veita nóg viðhald því kampurinn hefir ekki ruðzt inn á túnið síðan. En hvernig fer þegar bátarnir fúna?
Ekki var útgerð úr Lóninu nema nokkur ár, því árabátaútgerðin fór að leggjast niður og deyja út og fyrr á Innnesi en Suðurnesi.
Heimild: Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; - Flankastaðir“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-118.