Saga Flankastaða

Áður fyrr voru Flankastaðir allstór jörð á milli Sandgerðis og Útskálahverfis en í tímans rás hefur jörðinni verið skipt upp.
Hér verður aðallega fjallað um sögu og örnefni í jörðum Efri- og Neðri-Flankastaða sem eru syðst í forna Flankastaða landinu.

Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Suðurnesjabæ, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir (þ.e. jörðin fyrir skiptingu hennar um  1900-1930) eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar.

Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. (Islendinga Sögur ud. efter gamle Haandskrifter af det kongelige nor liske Oldskrift-Selskab. isl. et praef. dan, Bindi 1, Möller, 1843. bls 246.)

Frá Flankastöðum var líka mikið útræði. En Flankastaðavörin tilheyrir nú landi Efri-Flankastaða. Rústir verbúða sem heimildir segja hafi verið við norðanverða vörina hafa sennilega skemmst við lagningu sjávarvarnargarðs eða vegna aðgangs sjávar þar á undan. Útgerðin og góð fiskimið skammt undan í Miðnessjó hafa að líkindum verið aðalundirstaða lífsafkomu bænda á Flankastöðum. 

Lang þekktasta sagan um Flankastaði tengist víkivökum á fyrri tíð. Hér er smá texti sem segir frá þessu:

Á Flankastöðum voru lengi haldnir vikivakar um miðsvetrarleytið og var þar dansað og sungið á meðan nokkur gat staðið. Að líkindum hafa veislur þessar oft verið svallsamar og voru prestar þeim mjög andvígir. Að lokum lagði Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi blátt bann við þeim. Nokkrum árum síðar fórst hann á leið að Kirkjuvogi í Höfnum til að syngja þar messu. Höfðu sóknarbörn hans á orði að þar hefndist honum fyrir að afleggja vikivakana á Flankastöðum.

En á Flankastöðum gerðist margt fleira en svallsamar víkivökur. Þar var til dæmis fyrsti barnaskólinn á svæðinu. Þetta var í kringum aldamótin 1900 þegar Kristjánshús frá 1897 (sem stendur enn) var alveg nýtt. Síðar tók við skólahús sem var reist við Sandgerðistjörn.

Hér er heimild úr Skírni, 1. Tölublaði, 1.1.1963, bls 161 sem segir frá kirkju á Flankastöðum!

Nú skal gert ráð fyrir, að heimildin í skiptabréfi Eyjólfs Einarssonar í Dal 1558 um Flankastaði sé rétt. Þar segir, að kirkjan á Flankastöðum, og er það eina kunna heimildin um bænhús þar, eigi 10 C í heimalandi, en jörðin öll 50 C. í skiptunum eru Flankastaðir látnir sem 40 C, og er það hundraðstala hennar enn í Jarðabókinni. DI XIII 325. Talan 50 skal nú lögð til grundvallar og sett upp skrá yfir aðila hvalskiptanna í hundruðum reiknuðum, þar sem, eins og áður segir, ógerlegt er að ímynda sér annan mælikvarða.

Magnús Már Lárusson, Um hvalskipti Rosmhvelinga

 Á sama tíma og Kristjánshús var reist var greinilega mikið menningar- og bindindisstarf í gangi: 

stuka Flanko

Heimild: Íslenzki Good-Templar, 6. árgangur 1891-92, 4. tbl. 1.1.1892, bls 31.