Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Suðurnesjabæ, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir (þ.e. jörðin fyrir skiptingu hennar um 1900-1930) eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar.
Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. (Islendinga Sögur ud. efter gamle Haandskrifter af det kongelige nor liske Oldskrift-Selskab. isl. et praef. dan, Bindi 1, Möller, 1843. bls 246.)