Í hitteðfyrra áskotnaðist mér rennibekkur. Í námi mínu sem vélvirki var rennismíði algengust. Við smíðuðum íhluti í járnbrautarvagna, allt upp í hjól. Það eru um fjörtíu ár síðan ég hef haft aðgang að rennibekk.

 

En núna hef ég sem sagt minn eigin. Það er voðalega skemmtilegt. Núna er ég smám saman að koma dráttarvélinni í stand og þar vantar mig ýmsa hluti. Sumt þarf ég eflaust að kaupa en sumt get ég smíðað sjálfur. 

Á myndinni er hluti úr gírkassa sem ég fann á Miðnesheiðinni, hann er búinn að liggja lengi þarna og ryðga hægt og rólega í spað. En - nú fékk hluti af öxlinum nýtt hlutverk og verður pinni til að nota í þriggja-punkta upphengju á dráttarvélinni!