Síðastliðinn fimmtudag (27. mars 19) náði ég að mynda klak í fullri lengd. Að vísu þurfti ég að stytta upptökuna vegna þess að lítið gerðist framan af og Youtube leyfir mér í bili aðeins 10 mínútna klippur. Að fylgjast með ungum berjast út úr egginu er alveg einstök upplifun.

Fyrst kemur aðeins lítið gat, þar sem skelin brotnar og himnan fyrir innan rifnar. Þá getur unginn andað í gegnum það. Svo getur tekið 12 tíma eða meira þangað til hann heldur áfram. Ég hef reynt að hjálpa ungum með því að stara á eggið en ég held að árangurinn hafi ekki verið mikill. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir eindregna löngun áhorfandans að hjálpa til, aðeins að kroppa, aðeins að lyfta, þá megum við bara horfa á. Þetta er barátta ungans og við höfum ekkert hlutverk í henni nema að dáðst.

Það getur komið fyrir að ungi hafi ekki kraftinn til að ljúka þessum endaspretti, en þá verður það að hafa sinn gang...

Það er ýmislegt sem vekur undrun áhorfandans. Í egginu er ekkert "upp" eða "niður" það er kringlótt og unginn hefur ekkert viðmið úr umhverfinu. Samt veit hann um leið og hann er kominn úr egginu hvað snýr upp og niður! Hann vælir ákaft þegar hann liggur á bakinu og vill ólmast komast í eðlilega stöðu, þ.e. á magann! Hvernig getur ungi vitað þetta? Hvernig getur ungi vitað að það er til lífs að gogga í allar doppur, því að það gæti verið matur? Hvernig veit hann að hann þarf að lifta höfði til að vatnið sem hann er búinn að gogga renni niður um hálsinn?

Svona spurningar koma upp hjá mér. "Eðlisávísun" myndu sumir segja. En þegar þú sérð þetta gerast með eigin augum þá er þetta frekar bragðlaus skýring...

Njótið ...